Jens.JPG

Ávarp formanns

Ágæti félagsmaður

Þetta er síðasta ávarp mitt sem formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum, vinum mínum, fyrir að hafa treyst mér fyrir verkefninu undanfarin ár. Þessi tími hefur ekki alltaf verið án áskorana, en gefandi var hann og aldrei leiðinlegur. Nú er keflið komið í umsjón annars og ég veit að það er í góðum höndum. Öll erum við forystumenn í okkar fyrirtækjum og eigum því að vera óhrædd að takast á við forystuhlutverk í okkar góðu samtökum.

Árið var að mörgu leyti hagfellt fyrir íslenskan sjávarútveg og þar með fjárhagslega afkomu þjóðarinnar. Þótt ýmsar efnahagslegar stoðir hefðu gefið eftir stóð sjávarútvegurinn sterkt. Hann hefur staðið af sér ýmislegt í gegnum tíðina og hann mun gera það áfram; en það er þó ekki sjálfgefið. Allt frá því ég man eftir mér hafa ýmsir haft af því ánægju og atvinnu að níða skóinn af sjávarútveginum. Á sumu hef ég skilning, þjóðin er þrasgjörn, en annað á ég erfiðara með að skilja. Það skipulag sem við nú höfum á veiðum, vinnslu og sölu á sjávarafurðum, er hryggjarstykkið í sterkum sjávarútvegi. Kerfið sem okkur auðnaðist að taka í notkun upp úr 1980 hefur í öllum aðalatriðum reynst afar farsælt. Það væri vonandi að sem flestir gerðu sér grein fyrir því, að miklar breytingar á kerfinu munu kosta greinina og þjóðarhag háar fjárhæðir.

Samkeppnishæfni íslenskra útflutningsfyrirtækja er hornsteinn efnahagslegrar hagsældar á Íslandi. Án fótfestu á alþjóðlegum markaði geta Íslendingar ekki selt vörur sínar á því verði sem ásættanlegt er. Oft er látið eins og það sé lítið mál að selja hina ýmsu framleiðslu. Það er ekki þannig og það verður aldrei þannig. Góðir sölusamningar, samskipti og tengsl við kaupendur í útlöndum grundvallast oft á áratugalangri sögu og í henni felast oft mikil verðmæti.

Haf

Annað sem mig langar að nefna hér á þessum vettvangi og mér finnst stundum ekki fá næga athygli, er hversu miklu sjávarútvegurinn skiptir í rekstri annarra fyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti. Undanfarin ár höfum við séð hvert nýtt skipið á eftir öðru leggjast að bryggju, vítt og breitt um landið. Þegar gengið er um slík fley er augljóst að íslensku hand- og hugviti sér víða stað og of langt mál væri að telja hér upp öll þau fyrirtæki sem eiga í hlut. Þá eru þau fiskvinnsluhús sem opnuð hafa verið á undanförnum misserum ekki síður glæsileg og eru meðal þeirra fullkomnustu í heimi. Það er ekki oft sem hægt er að halda því fram að við Íslendingar séum í fremstu röð í heiminum. En í tilfelli sjávarútvegs og við vinnslu á sjávarafurðum stöndum við vissulega í fremstu röð. Þessi staðreynd vill stundum gleymast í hinu daglega þrasi um sjávarútveg. Sjávarútvegur er einn framsæknasti geiri íslensks atvinnulífs og við eigum að vera stolt af þeirri staðreynd og halda henni á loft við öll tækifæri.

DSC00026.JPG

Mikilvægi fjölbreytts útflutnings hefur svo sannarlega minnt á sig á yfirstandandi ári og það er afar ánægjulegt að sjá hversu ágætlega gengur í fiskeldi hér við land. Það skal fúslega viðurkennt að andstæðingar fiskeldis við Ísland er hávær hópur sem virðist helst vilja þessa atvinnusköpun með öllu úr landhelginni. Í mínum huga er það þó fráleitt að eitt útiloki annað. Ísland þarf á öllu sínu að halda til að styðja við efnahagslega hagsæld. Hana á þó ekki kaupa hvaða verði sem er. Enda hefur það ekki verið gert í tilfelli fiskeldis og langstærstur hluti strandlengjunnar er lokaður fyrir fiskeldi. Starfsfólk í íslensku fiskeldi keppist við að gera eins vel og það getur; vel vitandi um þá ábyrgð sem á herðar þess er lagt. Þannig á það að vera, því það er engum hagur í því að ganga illa um umhverfi sitt eða framleiðslu. Allra síst fyrirtækjunum.

Að lokum vil ég þakka öllum starfsmönnum samtakanna fyrir ánægjulegt samstarf í gegnum tíðina.

Jens Garðar Helgason