Skutrenna.jpg

Tækifæri til fiskveiða

Tækifæri til fiskveiða

Hér verður drepið á fáeina þætti sem varða tækifæri til fiskveiða og voru í deiglunni á árinu.

Veiðar í íslenskri lögsögu

Þorskur og ýsa

Varðandi aflamark til veiða úr fiskistofnum í íslenskri lögsögu voru þær breytingar helstar á árinu að ráðgjöf í júní 2019 um heildarafla þorsks á komandi fiskveiðiári var heldur hærri en árið áður – rúmlega 272 þúsund tonn í stað rúmlega 264 þúsunda tonna. Þá var ráðgjöf um heildarafla ýsu mun lægri en árið áður – tæplega 42 þúsund tonn í stað tæplega 58 þúsund tonna.

Hækkunin í þorskinum er framhald á þróun sem stóð í áratug við minna veiðiálag vegna lægri aflaprósentu í aflareglu (20% í stað 25%). Það felur í sér minni afföll vegna veiða og betri nýtingu árganga og fjölgun á stærri og eldri fiski í stækkandi stofni og því batnandi aflabrögð og minni kostnað við veiðarnar. Þessi þróun hefur nú skilað sínu og ekki eru líkur á mikilli stækkun stofnsins og verulega auknum þorskafla fyrr en stærri nýliðunarárgangar taka að bætast við stofninn.

Lækkunin í ýsunni er meðal annars vegna breytingar á aflareglu og lækkunar veiðihlutfalls úr 0,4 í 0,35. Sú breyting var talin nauðsynleg vegna þess að ýsan er nú í auknum mæli í kaldari sjó og kynþroska eldri og stærri en áður var og hrygningarstofn því hlutfallslega minni miðað við viðmiðunarstofn.

Loðna

Loðnubrestur varð á árinu, enda mældist ekki hrygningarloðna í því magni sem þarf til að unnt sé að gefa út kvóta til loðnuveiða samkvæmt aflareglu sem samningur strandríkjanna Íslands, Grænlands og Noregs um stjórn loðnuveiða kveður á um. Þessi varð niðurstaðan, þrátt fyrir ítarlega leit og mælingu með umfangsmikilli þátttöku íslensku veiðiskipanna og á kostnað loðnuútgerðanna. Þessi hefur verið framkvæmdin í vaxandi mæli undanfarin ár sem kunnugt er. Það er samdóma álit að leiðin út úr þessum vanda er helst sú að efla verulega rannsóknir og vöktun loðnunnar og gangna hennar á öllum stigum lífsferlisins frá seiðum til hrygningar, ásamt endurskoðun á aflareglu og fyrirkomulagi loðnumælinga. Að því er nú unnið í samráði við greinina.

Alþjóðasamningar sem varða fiskveiðar

Hvað alþjóðasamninga varðar einkenndist árið af kyrrstöðu og biðstöðu eftir breytingum í samningsumhverfinu. Má segja að þetta hafi verið heldur ógæfulegur aðdragandi þess erfiða ástands sem nú ríkir í þessum málum sakir heimsfaraldurs kórónuveiru.

Norsk-íslensk síld, kolmunni og makríll

Engir heildstæðir samningar eru um skiptingu aflamarks í okkar mikilvægustu deilistofnum uppsjávartegunda og hefur svo verið um langt árabil. Sem fyrr nær samningurinn um makríl eingöngu til þriggja af fimm strandríkjum og samningslaust er um kolmunna og norsk-íslenska síld. Afstaða okkar er sú að við eigum kröfu til sanngjarns hlutar úr þessum stofnum. Við aðhyllumst jafnframt nýtingarstefnu með aflareglum sem segja fyrir um hóflegt veiðiálag sem skili sér í stórum og stöðugum veiðistofni sem heldur í fæðugöngur á stóru hafsvæði til vesturs og tiltölulega góðum afla með litlum tilkostnaði.

Gegn þessu hefur Noregur teflt fram kröfum um endurskoðun á aflareglu í öllum þremur tegundunum með hækkað veiðihlutfall og þar með aukið veiðiálag að markmiði. Erfitt er að sýna þessum kröfum þeirra skilning þar sem slík breyting leiðir til minni stofna til langs tíma litið, meiri sveiflna í afla og meiri hættu á alvarlegri stofnminnkun sem skapi tímabundna nauðsyn á umtalsverðum samdrætti í ársafla. Með þessu móti yrðu veiðarnar óhagkvæmari fyrir alla aðila. Þetta gera þeir vitandi fullvel að vegna ósamkomulags um skiptingu veiðiréttar verða samanlagðir einhliða kvótar óumflýjanlega umtalsvert hærri en sem nemur settu marki, sem eitt og sér er þegar í hæsta lagi. Það hefur svo ekki hjálpað til að mikið flökt hefur verið á fiskifræði, stofnmati og ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins varðandi þessa þrjá stofna undanfarin ár og jafnvel innan árs þegar verst hefur látið. Þetta er því á allan hátt varasöm staða mála.

Til skýringar á þessu atferli Norðmanna er helst bent á stöðu þeirra heima fyrir, en uppsjávarfloti þeirra er mjög stór og þar sem regluverkið er þannig að þeim er illa fært að hagræða í flotastærð er úrræði þeirra það eitt að fóðra flotann með meiri afla en æskilegt væri út frá sjónarmiðum langtímanýtingar, hagkvæmni og sjálfbærni. Höfum við m.a. talað um „flotann óseðjandi“ í þessu sambandi.

Kvóti Íslands í uppsjávartegundum og afli 2019 (t)

*Kvótaákvörðun Íslands. **Inni í aflaheimild er óveiddur afli frá árinu áður sem heimilt er að flytja á milli ára.
Kvóti* Aflaheimild** Afli
Norsk-íslensk síld 102.174 105.946 105.896
Kolmunni 241.306 266.808 263.005
Makríll 140.240 153.242 125.515

Sjöunda strandríkið

Ofan á þetta bætist svo að sú ákvörðun Bretlands að ganga út úr Evrópusambandinu flækir mjög stöðuna við samningaborðið þar sem nýr aðili tekur sæti og ný óvissa myndast um framtíðarrétt aðila. Þessi ákvörðun Breta hefur mikil áhrif á sameiginlega stefnu Evrópusambandsins í fiskveiðum (Common Fisheries Policy,CFP). Kvótar þeir sem aðildarríki hafa í dag í sameiginlegum stofnum byggjast á ákvörðunum sem teknar voru fyrir meira en þremur áratugum og miðuðu við þáverandi útbreiðslu fiskistofna og veiðimynstur aðildarríkja eftir svæðum. Útbreiðsla margra fiskistofna í dag í sameiginlegri lögsögu ESB hefur breyst í áranna rás og nú er svo komið að verðmætari tegundir halda sig í verulega auknum mæli á því svæði sem verður lögsaga Breta við útgöngu. Það skiptir því miklu máli fyrir meginlandsþjóðirnar að halda óbreyttum kvótum og aðgangi að breskri lögsögu sem lengst og styðja þær kröfur sínar með tilvísun til sögulegrar veiðireynslu. Gegn því sjónarmiði ESB tefla Bretar seinni tíma sjónarmiðum um rétt sinn á grundvelli viðveru viðkomandi fiskistofna á því svæði sem nú verður bresk efnahagslögsaga. Í þessu samhengi nægir hér að nefna norsk-íslensku síldina, en það litla sem af henni teygir sig inn á það hafsvæði sem er lögsaga Evrópusambandsins fyrir útgöngu Breta er einskorðað við ysta jaðar norður af Skotlandi. Þessi afstaða samningsaðila hefur allt frá árinu 2016 sett strik í reikninginn í heildarsamningaviðræðum Bretlands og ESB og truflað samningaviðræður strandríkja um stjórnun veiða og skiptingu veiðiréttar á uppsjávartegundum.

Bretland fær stöðu strandríkis með útgöngu sinni þegar kemur að samningum um þessa stofna og einnig verður Bretland sjálfstætt aðildarríki að Norðaustur Atlantshafsfiskveiðinefndinni. Meðan Bretland og Evrópusambandið hafa ekki náð samningum um fiskveiðar gerist lítið í viðræðum strandríkja um deilistofna uppsjávar. Bretar eiga hagsmuna að gæta í öllum þremur deilistofnunum og óljóst er hvernig þeir koma til með að semja við ESB um hlut sinn úr sameiginlegum kvóta Evrópusambandsríkja í þessum tegundum. Samningaviðræður um deilistofna uppsjávar, hvort sem um ræðir síld, kolmunna eða makríl, eru því í eins konar gíslingu Brexit meðan þau mál eru óleyst. Alls er því óljóst hverju vindur fram á næstunni í þessum málum.

BBNJ

Lítið þokaðist í samningaviðræðum um nýjan samning sem heyra á undir Hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna og fjalla skal um vernd líffræðilegrar fjölbreytni í úthafinu, þrátt fyrir tvær stífar tveggja vikna samningslotur í New York á árinu. Samningur þessi getur haft í för með sér meiri eða minni áhrif á fiskveiðar eftir því hvernig til tekst. Nú er hlé á þessum viðræðum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og á meðan er reynt að þróa skilning á viðhorfum með fjarfundum. Stofnvistfræðingur SFS á sæti í samninganefnd Íslands í þessum viðræðum.