Upplýsingaveitan Radarinn.is, um helstu hagstærðir í sjávarútvegi og fiskeldi, var opnuð í október 2019. Skrifstofa SFS hafði unnið nokkuð lengi að undirbúningi hennar, en aðalmarkmiðið var að hafa hana einfalda og skýra. Radarinn er nokkurs konar mælaborð fyrir sjávarútveg og fiskeldi. Þar er safnað saman tölum og upplýsingum um atvinnugreinarnar og þær gerðar aðgengilegar öllum þeim sem áhuga hafa á íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi. Fréttir og upplýsingar á Radarnum byggjast á opinberum gögnum. Þótt vissulega sé að finna tölur um sjávarútveg og fiskeldi víða, fannst okkur vanta að tiltækum upplýsingum væri safnað saman og þær settar fram á skiljanlegan hátt. Með því móti er leitast við að gera staðreyndir um sjávarútveg og fiskeldi sjáanlegri og verða þar með uppspretta fréttatengds efnis og sögulegt yfirlit um þróun hinna ýmsu hagstærða.
Þegar farið er inn á Radarinn birtist valmynd þar sem hægt er að velja 5 aðalflokka: Útflutningur, Hagkerfið, Vinnumarkaður, Umhverfismál og Fiskeldi. Undir hverjum þeirra eru undirflokkar þar sem sjá má ýmis gröf sem unnin hafa verið úr tiltækum tölum og texta þar undir. Bæði er hægt að fá upplýsingar um tímabil sem og einstaka ár. Á Radarnum er einnig fréttaveita þar sem birtar eru og greindar nýjustu tölur um sjávarútveg og fiskeldi.
Við sem stöndum að Radarnum teljum að með honum sé samtímasaga sjávarútvegs og fiskeldis skráð með nokkuð greinagóðum hætti með tölum og greiningum. Og hann muni því verða mikilsverð heimild um stöðuna í þessum mikilvægu atvinnugreinum íslensks efnahagslífs. Nú þegar er mikið vitnað til talna og upplýsinga sem þar birtast. Það bendir til þess að traust sé borið til upplýsinga sem þar má finna. Enda er allt sem sett er á vefinn unnið úr opinberum gögnum, til dæmis frá Hagstofunni, Seðlabankanum, Orkustofnun og Byggðastofnun.
Nefna má nokkrar spurningar sem hægt er að fá svar við á Radarnum: Hvert var útflutningsverðmæti sjávarafurða og eldis árið 2019? Hvernig tryggjum við sjálfbærni í veiðum? Hvað starfa margir í sjávarútvegi? Hvernig skiptast atvinnutekjur á milli landshluta? Hvernig hefur olíunotkun þróast síðustu 30 ár? Hvað framleiðum við mikið af eldisafurðum?
Þrátt fyrir að Radarinn sé kominn í loftið er vefurinn vissulega enn í vinnslu, en stefnan er að setja talsvert meira af gögnum þar inn. Ber hér einna helst að nefna að enn á eftir að setja inn tölur um afla og aflamark frá Fiskistofu, sem eru afar lýsandi gögn um gang mála í sjávarútvegi í sögulegu samhengi og jafnvel út frá byggðasjónarmiði. Að því loknu ætti að vera hægt að sjá hvernig þróunin hefur verið eftir landshlutum í gegnum árin og þá samþjöppun sem orðið hefur í greininni frá því kvótakerfið var tekið upp. Þessi mál hafa verið og munu líklega áfram verða í umræðunni. Því er nauðsynlegt að slíkar upplýsingar séu uppi á borðinu og aðgengilegar.
Það væri sennilega ekki rétt að ætlast til þess að sérhæfður vefur sem þessi, væri að drukkna í heimsóknum. En þrátt fyrir það; nú þegar ár er liðið frá því að hann var settur í loftið, er rétt að gaumgæfa, hvernig til hefur tekist. Heimsóknir á vefinn hafa verið 16 þúsund, eða rúmlega 60 hvern virkan dag. Flettingarnar eru 32 þúsund. Það er ágætis árangur og Radarinn.is er kominn til að vera.