Frummælendur: Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands og Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Samfélagsábyrgð snýst um að fyrirtæki greini og skilji áhrif þess á umhverfi og samfélag, hvernig fyrirtækið getur orðið betra og samtímis styrkt reksturinn. Ekki er þó fullnægjandi að greina og skilja áhrifin. Fyrirtæki verða að fylgja þeim leikreglum sem settar eru og axla ábyrgð á athöfnum og þeim áhrifum sem ákvarðanir og umsvif þess hafa á samfélagið, umhverfi og efnahag. Þar er gagnsæi í fyrirrúmi.
Er rof í sambandi okkar við þjóðina?
Gallup gerði könnun í vetur sem leið þar sem meðal annars var spurt hvort fólk teldi að ákveðnar atvinnugreinar stæðu sig vel eða illa í að minnka kolefnisspor sitt. Eingöngu 15,6% töldu að sjávarútvegurinn stæði sig mjög vel eða frekar vel. Niðurstaðan er áhugaverð fyrir þær sakir að sjávarútvegurinn er eina atvinnugreinin á Íslandi þar sem náðst hefur raunverulegur árangur í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Hvernig ber að bregðast við niðurstöðunni?
Ef fólk skynjar ekki viðleitni eða árangur sjávarútvegsins í þessum efnum verða þeir sem innan greinarinnar starfa að gera betur við að koma þeirri vinnu á framfæri. Þótt mikið verk sé óunnið í þessum efnum er mikilvægt að halda því til haga sem þokast í rétta átt.
Verðmæti verða ekki til af sjálfu sér. Til þess að búa þau til þarf hugvit, þekkingu og fjármagn. Þegar þetta fer saman verður til atvinna, efnahagsleg umsvif aukast og ríki og sveitarfélög fá tekjur. Ef vel gengur eykst fjármagn í umferð sem hægt er að nýta til enn frekari uppbyggingar, nýsköpunar eða fjárfestinga. Allt eru þetta hefðbundnir drifkraftar hagkerfis. Til þess að styðja við þróunina er mikilvægt að fyrirtæki hafi svigrúm til þess að vaxa og dafna. Svigrúmið eitt og sér dugar þó ekki, því fyrirtæki verða að geta treyst því að starfsumhverfi sé nokkuð stöðugt. Sérstaklega þar sem fjárfesta þarf í dýrum tækjum og tólum. Sjávarútvegur er mjög fjárfrekur rekstur. Óvissa með lífríki hafsins og pólitískar hótanir um að gera þurfi svo og svo miklar breytingar kerfinu, gera rekstrarumhverfi sjávarútvegs enn erfiðara fyrir. Stundum vill það gleymast að 98% af íslensku sjávarfangi eru flutt úr landi. Þar er hin eiginlega víglína íslensks sjávarútvegs.
Framferði þeirra sem innan sjávarútvegs starfa verður að vera þess eðlis að sú krafa rísi ekki í samfélaginu að breytinga sé þörf. Þáttur fyrirtækjanna er mikilvægur, þau verða að haga sér með ábyrgum hætti og upplýsa um áhrif starfseminnar á umhverfi, samfélag og efnahag. Tortryggni í garð sjávarútvegsfyrirtækja virðist vera nokkuð útbreidd. Til að eyða henni verður greinin að veita upplýsingar um hvað það er sem fyrirtæki innan hennar eru að fást við.
Hluti þess að hafa að leiðarljósi stefnufestu og langtímahugsun er að taka mark á vistvænum viðhorfum og skoðunum. Það hefur sjávarútvegurinn gert enda veltur velgengni sjávarútvegs á góðri umgengni við hafið og vistkerfið. En sjávarútvegurinn getur gert enn betur og hyggst gera það. Forsvaranleg umgengni og gagnsæi draga úr tortryggni og geta einnig stutt við sölu á íslenskum fiski. Enda eru uppi kröfur frá kaupendum um að fyrirtæki sem þeir eiga í viðskiptum við hagi sér með ábyrgum hætti. Þannig að í raun er þetta ekki val, heldur nauðsyn. Besta leiðin til þess að koma þessu á framfæri er að segja frá því sem er að gerast innan sjávarútvegsins, því við höfum góða sögu að segja.
Getum við bætt það rof?
Til að greina áhrif fyrirtækja á umhverfi, samfélag og efnahag, þurfa þau að hlusta á væntingar allra hagaðila. Og síðan að vinna kerfisbundið að því að draga úr neikvæðum áhrifum, en auka þau jákvæðu. Þá verður að taka upp stefnu sem nær til allrar starfseminnar og vinna í samræmi við lög og alþjóðlega viðurkenndar venjur.
Opið samtal gegnir hér veigamiklu hlutverki. Það samtal, af sjávarútvegsins hálfu, hófst með fundaröð síðari hluta vetrar undir heitinu; Samtal um sjávarútveg. Upplýsingar um fundina og upptökur af þeim má finna hér að neðan.
Samhliða fundunum fór fram umfangsmikið samtal meðal félagsmanna SFS og stefnumótun þar sem unnið var með ákveðin þemu. Ákveðið var að vinna samfélagsstefnu út frá alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum þar sem nokkur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru valin sem grunnstef. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015.
Íslenskur sjávarútvegur ætlar að innleiða stefnu í samfélagsábyrgð og með því vera í fremstu röð í heiminum í sjálfbærni og styrkja þannig stöðu íslensks sjávarútvegs, bæði hér heima og á erlendum mörkuðum.
Greining var gerð meðal hagaðila til að skilgreina og forgangsraða mikilvægum og viðeigandi málefnum sem heyra undir samfélagsábyrgð sjávarútvegsfyrirtækja.
Hagaðilar
Til þess að grafast fyrir um hvað gera má betur í sjávarútvegi og auka skilning á því sem þar er að gerast héldu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fjóra fundi um málefni sjávarútvegs síðari hluta vetrar. Efni fundanna var: gagnsæi, umhverfismál, samfélagslegur ábati og nýsköpun.
Sjávarútvegur er grundvallarstoð efnahagslegrar hagsældar á Íslandi og hluti af menningu okkar. Skiljanlegt er að margir hafi skoðun á svo mikilvægri atvinnugrein og nýtingu á náttúruauðlind. Þótt ekki sé víst að nokkru sinni takist að sætta öll sjónarmið er mikilvægt að koma í veg fyrir að tortryggni og illindi verði ráðandi öfl í sambandi sjávarútvegs og þjóðar. Opið og hreinskiptið samtal um sjávarútveginn er leiðin fram á við. Fundirnir í vetur voru hluti af stefnumótun greinarinnar í samfélagsábyrgð þar sem tekið var mið af sjónarmiðum sem komu fram, bæði frá frummælendum og áheyrendum.
Frummælendur: Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands og Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Frummælendur: Andri Snær Magnason rithöfundur, Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar og Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. í Grindavík..
Frummælendur: Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild HÍ, Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. og Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.
Frummælendur: Guðmundur Hafsteinsson, sérfræðingur í nýsköpun og Berta Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri Sjávarklasans.
Sérfræðingur í umhverfismálum kom til starfa hjá SFS í lok árs 2019. Þar lýtur vinnan fyrst og fremst að umhverfis- og samfélagsmálum. Unnið hefur verið að því að greina hvað felst í samfélagsábyrgð sjávarútvegs og hvernig sjávarútvegurinn getur risið undir henni og á sama tíma styrkt og bætt reksturinn. Settur var saman hópur félagsmanna sem unnið hefur náið með skrifstofu SFS, ásamt stjórn, í stefnumótun samfélagsábyrgðar.
Vinnufundur SFS um samfélagsábyrgð var haldinn 4. mars 2020. Öllum félögum í SFS var boðið og mættu yfir 20 lykilstjórnendur í íslenskum sjávarútvegi. Á fundinum var farið yfir málefni samfélagsábyrgðar og í framhaldinu fékk fundarfólk það verkefni að móta lykiláherslur íslensks sjávarútvegs í umhverfismálum og samfélagsábyrgð. Lagðar voru fram 6 lykilspurningar og unnið með þær í 4 vinnuhópum, í þremur verkefnalotum. Fjallað var um loftslagsmál, málefni hafsins, ábyrga framleiðslu, stjórnarhætti, mannauðsmál og öryggismál. Miklar umræður voru í öllum hópum þar sem reifaðar voru hugmyndir og í lokin var þeim hugmyndum forgangsraðað.
Öllum fyrirtækjum innan SFS var boðið að taka þátt í mótun stefnunnar