DSC_7972.JPG

Ávarp framkvæmdastjóra

Íslenskur sjávarútvegur hefur verið ein mikilvægasta grunnatvinnugrein þjóðarinnar um langa hríð. Á því er ekki fyrirsjáanleg breyting, nema síður sé. Stundum gengur vel, stundum síður vel. Árið í fyrra er engin undantekning. Sjávarútvegurinn þarf á öllum tímum að fást við ýmsar breytur, umfram aðrar atvinnugreinar. Hann er til dæmis háður því að skilyrði í náttúrunni séu bærileg, að markaðir í útlöndum séu opnir fyrir sölu á afurðum, að gengi gjaldmiðla sé útflutningi hagfellt, að stjórnmálaástand, bæði heima fyrir og erlendis, sé stöðugt og að samskipti og samningar við aðrar þjóðir um nýtingu flökkustofna séu uppbyggileg. Ekkert af þessu er nýlunda í hugum þeirra sem fylgst hafa með sjávarútvegi í gegnum tíðina.

Það hafa komið ár þar sem fiskistofnar finnast ekki í veiðanlegu magni og er loðnan þar nærtækt dæmi. Sumir stofnar hafa horfið um lengri eða skemmri tíma. Svo koma ár þar sem nýir stofnar finnast, eins og makríll og kolmunni. Á þessum breytingum hefur mannskepnan ekki nema takmörkuð áhrif. Vísindin koma að sjálfsögðu oft til hjálpar og blessunarlega byggist sókn okkar í fiskistofna á umliðnum árum á vísindalegum ráðleggingum. Þeir sem tala fyrir annarri nálgun hafa ekki fært mál sitt fram með sannfærandi hætti, þótt að sjálfsögðu beri að hlusta á fleiri sjónarmið, ekki síst þeirra sem hafa haldbæra reynslu af nýtingu. Svo má ekki gleyma hinu, að mikil ábyrgð hvílir á herðum þeirra sem mæla fyrir um sjálfbæra nýtingu á fiskistofnum og þótt ýmsir vilji fara aðrar leiðir, er ekki víst að ábyrgðin færi þeim vel. Mig langar í þessu samhengi að nefna þorskinn. Stofninn var orðinn hættulega lítill árið 2006. Ástæða þessa var að of mikið var veitt af þorski ár eftir ár þrátt fyrir ráðgjöf vísindamanna um annað. Hér gripu menn í taumana og þorskstofninn óx ár frá ári. Stjórn á þorskveiðum, okkar langmikilvægasta stofni, hefur því tekist vel og ber vísindunum gott vitni.

_DSF3737_stor.jpg

Alþjóðlegir markaðir fyrir íslenskan fisk hafa verið opnir og er því ekki síst að þakka að gæði eru alltaf góð söluvara. Það á við um íslenskan fisk. Þessi aðgangur er þó ekki sjálfsagður og meitlaður í stein. Nefna má í því sambandi aðgang að markaði í Rússlandi sem hvarf eins og dögg fyrir sólu. Þessu skylt er að sjálfsögðu samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Ísland er langt í burtu frá helstu mörkuðum og ekki er fyrirsjáanleg breyting á því. Því kostar það oft meira að koma fiski frá Íslandi á markað í útlöndum, en frá öðrum löndum.

Það þarf að hafa fyrir því að halda stöðu á markaði þar sem hæstu verðin fást. Það er þrotlaus vinna og gaman til þess að hugsa að viðskiptasambönd íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja við erlenda kaupendur byggjast mörg hver á áratugalöngu samstarfi. Gott viðskiptasamband verður ekki byggt á einum degi, þar þarf mikið til, og í því felast mikil verðmæti. Ég mun seint þreytast á að hamra á þeirri staðreynd að án fótfestu á alþjóðlegum markaði er tómt mál að tala um arðbæran íslenskan sjávarútveg. Minna verður á, að um 98% af íslenskum fiski eru seld erlendis. Margir tala eins og fiskur selji sig sjálfur, það eina sem þurfi að gera sé að veiða hann og selja. Það er mikill einföldun og þeir sem tala með þessum hætti hafa lítinn skilning á þeim lögmálum sem gilda í alþjóðlegum viðskiptum.

Undan því verður ekki vikist að minnast á áhrif COVID-19 á íslenskan sjávarútveg, þó hér sé árið 2019 til umfjöllunar. Ástandið sem varð í alþjóðlegum viðskiptum hefur reynst mörgum afar erfitt. Augljósasta dæmið er að sjálfsögðu ferðaþjónustan sem á allt sitt undir frjálsri för fólks. Auk þess hefur dregið úr spurn eftir ýmsum vörum og fyrirtæki lent í vandræðum. Sjávarútvegurinn hefur ekki farið varhluta af ástandinu.

Áhrifin eru mismikil á milli greina sjávarútvegsins, en staðan er þó bærilegri en í mörgum öðrum atvinnugreinum. Sjávarútvegsfyrirtæki standa frammi fyrir mikilli óvissu, því markaðir með sjávarafurðir hafa breyst á skömmum tíma. Víða er ferðafrelsi skert og erfitt getur verið að komast á milli landa með afurðir, því takmarkanir hafa verið settar á landamærum. Slíkt hefur leitt til aukins kostnaðar fyrir fyrirtækin og það á sama tíma sem þrýstingur hefur verið á að verð afurða séu lækkuð. Á móti lækkun á afurðaverði kemur hins vegar veiking á gengi krónunnar, sem hjálpar til. Lækkunin er þó tvíbent, því sumir kostnaðarliðir hækka, eins og til dæmis olía, sem er annar stærsti kostnaðarliðurinn í rekstri útgerða. Þó hefur gangurinn í sjávarútvegi verið betri en margir óttuðust í fyrstu. Í þessu sambandi má nefna nýjustu spá Seðlabankans sem hljóðar upp á 8% samdrátt í útflutningi sjávarafurða í ár en bankinn hafði reiknað með 12% samdrætti í spánni sem gefin var út í maí. Þessa breytingu má einna helst rekja til þess að gangurinn í sjávarútvegi á öðrum ársfjórðungi var framar vonum bankans.

Skutur_Páll_Pálsson.jpg

Því hvernig sem allt veltist í veröldinni, þarf fólk að borða, hjá því verður ekki komist. Það sem COVID ástandið dró fram, er styrkleiki kerfisins. Íslenskur sjávarútvegur mun standa storminn af sér. Það er ekki síst vegna sveigjanleika hins íslenska fiskveiðistjórnunarkerfis og fjárhagslega sterkra og vel rekinna fyrirtækja. Þetta er fáheyrt í alþjóðlegum heimi sjávarútvegs. Beggja vegna Atlantshafs er nú keppst við að dæla fjármunum skattgreiðenda inn í sjávarútveg. Vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins fá aðildarríki ESB alls 160,3 milljónir evra, jafnvirði um 26 milljarða íslenskra króna, til þess að styrkja sjávarútveg og fiskeldi. Í Bandaríkjunum var 300 milljónum dala, jafnvirði um 41 milljarði íslenskra króna, ráðstafað í sjóð til aðstoðar aðilum í sjávarútvegi sem orðið hafa fyrir áhrifum af COVID. Íslenskur sjávarútvegur hefur engrar aðstoðar óskað frá ríkissjóði – og ekki er fyrirséð að til þess komi. Það er hins vegar mikilvægt að þessar erlendu staðreyndir séu þekktar, þegar hugað er að samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og þeim rekstrarskilyrðum sem honum eru búin hér á landi, í samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg á erlendum mörkuðum.

Þá hefur einnig komið berlega í ljós að vel fjármögnuð fyrirtæki eru langtum líklegri til að standa af sér viðlíka ástand og nú er uppi. Fyrirtæki með lítið eigið fé hafa ekki á neitt að ganga þegar í bakseglin slær. Mér hefur oft fundist að þeir sem vilja umbylta kerfinu horfi fram hjá þessari staðreynd. Það er ekki aðeins hagur fyrirtækjanna sjálfra að vera vel fjármögnuð, það skiptir land og þjóð einnig miklu. Hvað hefði gerst ef sjávarútvegurinn hefði verið veikburða og skuldum hlaðinn þegar faraldurinn hófst; hefði það gagnast þjóðinni betur, þegar sjávarútvegurinn er ein helsta uppspretta gjaldeyris? Þetta er atriði sem ber að hafa í huga þegar barist er fyrir því að veikja fjárhagslegar stoðir sjávarútvegs. Íslendingum hefur tekist að gera sjávarútveg að efnahagslegri burðarstoð og íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð á heimsvísu. Það er gott hlutskipti.

Samfélagsstefna sjávarútvegs

Gangurinn í íslenskum sjávarútvegi um þessar mundir er ágætur. Það er ekki síst því að þakka að stjórnendur og starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja vita hvað þarf til svo gera megi verðmæti úr þeirri takmörkuðu auðlind sem þeim er treyst fyrir. Í mínum huga eru bæði þessi atriði, auðlind og traust, mikilsverð og þeim ber að veita athygli, kannski umfram það sem gerist og gengur í öðrum atvinnugreinum. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar, segir í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða frá árinu 2006. Hvernig þetta á að skiljast, er ekki með öllu ljóst, ekki síst frá lögfræðilegum sjónarhóli séð. En hvernig sem menn kjósa að skilja þessa grein er einboðið að þeir sem nýta nytjastofna verða að gera það með forsvaranlegum hætti. Að öðrum kosti er alið á tortryggni og viðvarandi tortryggni er ekki góður liðsmaður við rekstur fyrirtækja.

Öll viljum við starfa í sátt við það samfélag sem við búum í og þjónum. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að umgengni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sé ámælisverð, þótt upp kunni að koma vísbendingar um sitthvað sem betur má fara. Slíkt gerist í öllum atvinnurekstri. Það er ekki hagur fyrirtækjanna að haga sér á óforsvaranlegan hátt. Þeirra hagur felst í því að fara eftir þeim reglum sem gilda, í einu og öllu. Sé það ekki gert mun það bitna harðast á fyrirtækjunum sjálfum. Ég hef ekki orðið vör við annað en að þetta sé forsvarsmönnum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja augljóst.

SFS Dagur.jpg

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi réðu sérfræðing í umhverfismálum til sín í lok sumars 2019. Auk starfa að umhverfismálum hefur mikill tími og vinna viðkomandi starfsmanns farið í gerð samfélagsstefnu fyrir íslenskan sjávarútveg. Mér vitanlega er sjávarútvegurinn fyrsta atvinnugreinin sem sett hefur sér heildstæða stefnu í þessum efnum. Er þörf á því, munu einhverjir spyrja. Já, er að sjálfsögðu augljósa svarið, því annars hefði ekki verið ráðist í gerð hennar. Íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum er full alvara með stefnu í samfélagsábyrgð. Í henni er að finna ákvæði um umhverfisþætti, stjórnarhætti og samfélagslega þætti. En hvað er samfélagsábyrgð? Hún snýst um að fyrirtæki greini og skilji áhrif þess á umhverfi og samfélag, hvernig fyrirtækið getur orðið betra og samtímis styrkt reksturinn. Ekki er þó fullnægjandi að greina og skilja áhrifin. Fyrirtæki verða að fylgja þeim leikreglum sem settar eru og axla ábyrgð á athöfnum og þeim áhrifum sem ákvarðanir og umsvif þess hafa á samfélagið, umhverfi og efnahag. Þar er gagnsæi í fyrirrúmi. Það er von mín að með stefnu í samfélagsábyrgð megi draga úr þeirri tortryggni sem gætir í garð íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Að mínu viti er sú tortryggni óþörf og það er okkar, sem samtaka, að sýna fram á það með trúverðugum hætti. Stefna í samfélagsábyrgð og eftirfylgni með henni, er vonandi varða á þeirri leið.

Áður en ég segi skilið við starfsemi tengda fiskveiðum, langar mig að tæpa á öryggismálum til sjós. Ekkert banaslys varð til sjós við Ísland árið 2019. Þetta var þriðja árið í röð sem enginn ferst við störf um borð í íslensku fiskiskipi. Þegar litið er um öxl sést að mikil breyting hefur orðið á öryggi sjómanna. Steinar J. Lúðvíksson rithöfundur hefur rakið sögur af baráttu Íslendinga við Ægi á 20. öldinni í ritröðinni, „Þrautgóðir á raunastund“. Hann hefur meðal annars tekið saman fjölda þeirra sem fórust í sjósköðum við Ísland á liðinni öld. Þeir eru á fimmta þúsundið. Bara árið 1959 fórust 59 sjómenn og á árunum 1966 til 1970 fórust alls 101 sjómaður. Sameiginleg vinna útgerða og sjómannaforystunnar við að auka öryggi sjómanna hefur skilað miklum árangri og er fagnaðarefni. Krafan um að allir komi heilir heim er bæði sjálfsögð og eðlileg.

Fiskeldi

Það er stefna stjórnvalda að hér við land verði stundað fiskeldi, eins og fram kemur í stjórnarsáttmála. Umsvif í fiskeldi hafa aukist verulega á undanförnum árum og er óhætt að segja að hér sé að verða til öflugur grunnatvinnuvegur, þótt fiskeldið eigi sér vissulega lengri sögu en svo. En hvernig skilgreinir maður grunnatvinnuveg og fellur fiskeldi undir slíka skilgreiningu? Grunnatvinnuvegur er sá atvinnuvegur sem hefur meiri efnahagslega þýðingu á tilteknu svæði en aðeins umfang hans gefur til kynna. Þannig eru aðrir atvinnuvegir háðir starfsemi hans en hann ekki háður starfsemi þeirra, að minnsta kosti ekki í eins miklum mæli. Skilgreiningin á vel við um fiskeldi og eru áhrif greinarinnar mjög mikil á nokkrum stöðum á landinu, eins og á Vestfjörðum og Austurlandi. Þar hefur atvinnulíf færst í blómlegra horf og fólki fjölgað, sem bæði má rekja beint til aukinna umsvifa í starfseminni og óbeint til þeirra afleiddu áhrifa sem hún hefur haft á aðra starfsemi. Fiskeldi hefur jafnframt treyst gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, sem ekki er vanþörf á enda er útflutningur fremur fábreyttur hér á landi miðað við önnur lönd. Og hefur fram til þessa hvílt að langstærstum hluta á þremur stoðum, það er sjávarútvegi, álframleiðslu og ferðaþjónustu. Ábatinn verður sérlega áberandi þegar í bakseglin slær hjá stærstu útflutningsgreinunum, líkt og gerst hefur undanfarin misseri. Fiskeldi er í raun ein af fáum útflutningsgreinum sem er í vexti um þessar mundir, þótt greinin hafi vissulega ekki farið varhluta af því ástandi sem skapast hefur vegna COVID-19. Hefur ástandið meðal annars leitt til þess að afurðaverð hefur lækkað verulega á erlendum mörkuðum og hægst hefur á framleiðslu þótt hún hafi vissulega aukist frá fyrra ári.

Arnarfjörður.jpg

Fiskeldi hefur vissulega ekki átt upp á pallborðið hjá öllum Íslendingum og hefur gagnrýnin meðal annars beinst að erlendu eignarhaldi. Sú gagnrýni hefur mér fundist vanhugsuð, ekki einungis fyrir þær sakir að hún dreifir fjárhagslegri áhættu af innlendri atvinnuuppbyggingu heldur einnig að slíkri fjárfestingu fylgir oft mikil reynsla og þekking sem auk þess hefur styrkt tengsl við erlenda markaði. Slík er raunin með fiskeldi hér á landi. Greinin er enn í uppbyggingarfasa og hvernig til tekst mun skipta miklu máli fyrir byggðarlög þar sem hún hefur mikla efnahagslega þýðingu. Ber því að taka því fagnandi ef erlendir fjárfestar sem og innlendir sjá tækifæri í því að fjárfesta í fiskeldi hér á landi.

Lög um fiskeldi voru samþykkt í byrjun sumars 2019. Segir svo í fyrstu grein þeirra: „Markmið laga þessara er að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna.“ Ég tel að í þessari setningu felist það sem til þarf svo atvinnugreinin geti vaxið og þróast með eðlilegum hætti á næstu árum, á sama tíma og tekið er tillit til þeirra áskorana sem fylgja. Íslensk fiskeldisfyrirtæki hafa tekið ábyrgð sína alvarlega, enda vilja þau starfa í sátt við umhverfi sitt.