DSC_1752.JPG

Efnahagsmál

Rekstrarskilyrði sjávarútvegsfyrirtækja voru á margan hátt hagfelldari á árinu 2019 en árið 2018, bæði hvað tekju- og gjaldahlið varðar. Loðnubrestur setti þó vissulega strik í reikninginn fyrir mörg fyrirtækjanna, sem leiddi til þess að talsverður samdráttur var í útflutningi á sjávarafurðum á milli ára. Veiking á gengi krónunnar studdi vissulega við afkomu greinarinnar, en engu að síður voru útflutningsverðmæti sjávarafurða nánast óbreytt á milli ára í erlendri mynt, þrátt fyrir samdrátt í útfluttu magni. Ástandið á mörkuðum erlendis hefur stóru hlutverki að gegna í því sambandi, en það kemur vitaskuld fleira til. Ber hér helst að nefna að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru stöðugt á vaktinni til að auka verðmæti afurða með ýmsu móti og í þrotlausri vinnu við að styrkja virðiskeðjuna. Tekjur sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 2019 markast af þessum staðreyndum og er ljóst að sú mikla fjárfesting sem þau hafa ráðist í á undanförnum árum er að leiða til aukinnar verðmætasköpunar og hefur bætt samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Árangur íslensks sjávarútvegs við að draga úr kolefnisfótspori sínu er þó einn veigamesti ábatinn sem fengist hefur með aukinni fjárfestingu.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða og gengi krónunnar

Í milljörðum króna á gengi hvers árs

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands

Útflutningsverðmæti sjávarafurða eykst

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam rétt rúmlega 260 milljörðum króna á árinu 2019 og jókst um rúma 20 milljarða frá fyrra ári. Jafngildir það aukningu upp á rúm 8% í krónum talið og á þann kvarða hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða ekki verið meira síðan á árinu 2015. Tæplega 8% lækkun á gengi krónunnar studdi vissulega við afkomu greinarinnar í krónum talið, en að teknu tilliti til þess stóð útflutningsverðmæti sjávarafurða nánast í stað á milli ára. Það er nokkuð merkilegt þar sem á sama tíma dróst útflutt magn sjávarafurða saman um rúm 7%. Það var því afurðaverðið sem vóg upp þann samdrátt sem varð í magni, en að jafnaði fékkst 8% hærra verð fyrir útfluttar sjávarafurðir á árinu 2019 en 2018, mælt í erlendri mynt.

Þess ber að geta að sú magnbreyting sem hér er vitnað til er ekki sú sama og breyting útfluttra afurða í tonnum talið. Sjávarafurðir eru afar fjölbreyttar og misverðmætar og samsetning þeirra í útflutningi er mismunandi á milli ára. Magnbreyting sem hér verður fjallað um tekur tillit til þess.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða

Breyting undirliða milli ára (%)

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
*Breyting á gengisvísitölu Seðlabankans
** Magn vegið með undirliggjandi verðmæti

Lognið á undan storminum

Eftir þá snörpu lækkun sem varð á gengi krónunnar, haustið 2018, sem kom í kjölfar fregna um fjármögnunarvanda WOW Air og áhyggjur markaðsaðila af efnahagshorfum og kjarasamningum, hélst það tiltölulega stöðugt á árinu 2019. Var viðskiptavegið meðalgengi krónunnar um 181 stig á árinu, sem er á svipuðu róli og það var á síðasta ársfjórðungi 2018. Veikingin á gengi krónunnar um haustið 2018 var vissulega mjög snörp, en fyrir þann tíma hafði krónan verið fullsterk um talsvert langt skeið og raungengi í hæstu hæðum, sem kom verulega niður á samkeppnishæfni útflutningsgreina. Var því þróunin á gengi krónunnar á árinu 2019, sem fól í sér hóflegri sveiflur í kringum veikara gengi en undanfarin ár, hagstæðari fyrir útflutningsgreinar landsins.

Gengisvísitala krónunnar

Viðskiptavog þröng

Heimild: Seðlabanki Íslands

Loðnubrestur tekur toll

Þann ríflega 7% samdrátt sem varð á útfluttu magni sjávarafurða á árinu 2019 frá fyrra ári má að stærstum hluta rekja til loðnubrests. Þó gætir hér einnig grunnáhrifa. Þannig voru óveiddar veiðiheimildir í árslok 2017 óvenjumiklar, þar sem ekki hafði náðst að vinna upp framleiðslutap vegna sjómannaverkfallsins að fullu innan fiskveiðiársins 2016/17. Var því útflutningur sjávarafurða á árinu 2018 meiri fyrir vikið.

Rúmlega 16% samdráttur var í útflutningi á uppsjávarafurðum á árinu 2019 frá fyrra ári, sem má fyrst og fremst rekja til loðnubrests. Af einstaka vinnsluflokkum uppsjávarafurða voru áhrifin mest á útflutning á fiskimjöli. Útflutningur á botnfisks- og flatfiskafurðum dróst saman um tæp 4% á milli ára. Hann má einna helst rekja til ofangreindra grunnáhrifa. Af einstaka vinnsluflokkum var samdrátturinn mestur í útflutningi á saltfiskafurðum og svo sjófrystra, og í raun var það aðeins útflutningur á ferskrum afurðum sem stóð nánast í stað á milli ára.

Útflutningur sjávarafurða, magn*

Breyting á milli ára (%)

Heimild: Hagstofa Íslands
* Magn vegið með undirliggjandi verðmæti

Hækkun á afurðaverði ekki sjálfgefin

Verð útfluttra sjávarafurða var að jafnaði 8% hærra í erlendri mynt á árinu 2019 en árið 2018 og kom sú hækkun í kjölfarið á tæplega 5% hækkun árið á undan. Hækkunin náði yfir nær alla afurðaflokka. Nokkuð meiri hækkun var á verði útfluttra uppsjávarafurða en botn- og flatfiskafurða, eða rúm 9% á móti 8%. Hvað uppsjávarafurðir varðar ber hér helst að nefna þá miklu hækkun sem varð á frystum loðnuhrognum. Skýrist það fyrst og fremst af loðnubresti, en hvorki var veidd loðna við Ísland né í Barentshafi á árinu, sem jók mjög verðmæti loðnubirgða frá fyrra ári.

Í heildina litið er þó ljóst að sú mikla fjárfesting í tækni og nýsköpun, sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa ráðist í á undanförnum árum, gegndi stóru hlutverki í ofangreindri þróun. Fiskur í sjó felur ekki í sér verðmæti í sjálfu sér, það þarf að gera úr honum verðmæti og selja á mörkuðum erlendis þar sem hörð samkeppni ríkir og kröfurnar eru stöðugt að aukast. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru vakin og sofin að auka verðmæti afurða með ýmsu móti og í þrotlausri vinnu við að bæta virðiskeðjuna, allt frá skipulagi veiða til lokasölu. Þó er augljóst að erfitt er að festa fingur á hversu miklu slík vinna skilar þegar á heildina er litið, enda er hún falin í verði útfluttra sjávarafurða þar sem ástand á mörkuðum erlendis gegnir einnig veigamiklu hlutverki.

Verð útfluttra sjávarafurða í erlendri mynt*

Breyting milli ára (%)

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
* Nálgað með því að leiðrétta með gengisvísitölu Seðlabankans

Aukin verðmætasköpun

Útflutningsverðmæti botn- og flatfiskafurða nam rúmlega 191 milljarði króna á árinu 2019. Það er um 13% aukning í krónum talið frá árinu á undan en um 4% í erlendri mynt. Hærra verð fyrir útfluttar botn- og flatfiskafurðir á milli ára skýrir þessa aukningu enda dróst útflutt magn saman á milli ára, eins og fyrr greinir. Eftir vinnsluflokkum munaði mest um þá aukningu sem varð í útflutningi á ferskum afurðum. Fór útflutningsverðmæti þeirra í 71 milljarð króna á árinu og jókst um rúm 9% á milli ára í erlendri mynt. Hefur verðmæti þeirra aldrei áður verið meira og voru þær alls um 37% af útflutningsverðmætum botn- og flatfiskafurða á árinu. Það hlutfall hefur jafnframt aldrei farið svo hátt, en í byrjun síðasta áratugar var vægi þeirra 26% og um aldamótin 16%. Breyttar aðstæður á markaði skýra þessa þróun meðal annars, en mun meiri eftirspurn hefur verið eftir ferskum afurðum undanfarin ár en áður. Hefur sú mikla tæknibylting sem orðið hefur í íslenskum sjávarútvegi gert fyrirtækjum kleift að mæta þessari auknu eftirspurn. Er því ljóst að fjárfesting fyrirtækjanna er að skila sér í aukinni verðmætasköpun.

Af öðrum vinnsluflokkum má nefna að útflutningsverðmæti sjófrystra og annarra frystra afurða jókst um 4% á milli ára í erlendri mynt og þurrkaðra afurða um tæp 9%. Á hinn bóginn dróst útflutningsverðmæti saltfiskafurða saman um 3% á milli ára í erlendri mynt, en sá flokkur hækkaði minna í verði en aðrir afurðaflokkur og náði sú hækkun ekki að vega upp þann samdrátt sem varð á útfluttu magni.

Útflutningsverðmæti botn- og flatfiskafurða eftir vinnslu

Í milljörðum króna á föstu gengi miðað við meðalgengi* ársins 2019

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
* Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans

Loðna vóg talsvert þrátt fyrir brest

Útflutningsverðmæti uppsjávartegunda nam um 50 milljörðum króna á árinu 2019, sem er nánast á pari við árið 2018 í krónum talið. Í erlendri mynt var hins vegar samdráttur upp á rúm 8%. Loðnubrestur setti vitaskuld verulegt strik í reikninginn, og náði verðhækkun sem varð á uppsjávarafurðum ekki að vega upp þann samdrátt sem varð í magni. Þrátt fyrir loðnubrest vóg sala loðnubirgða, sér í lagi loðnuhrogna, nokkuð drjúgt í útflutningsverðmætum uppsjávarafurða á árinu, eða 17%. Nam útflutningsverðmæti loðnubirgða rúmlega 8 milljörðum króna á árinu og dróst saman um 56% á milli ára í erlendri mynt. Hér ber að halda til haga að útflutningstölur fyrir tiltekið ár endurspegla ekki að fullu það sem flutt var út á árinu. Hluti af afurðunum kann að hafa verið fluttur út fyrir einhverju síðan en tafir geta verið á gögnum. Slíkur tímamismunur er algengari vegna gagna um uppsjávarafurðir en aðrar sjávarafurðir.

Af öðrum uppsjávartegundum má nefna að myndarleg aukning var í útflutningsverðmæti á síld (40%) og makríl (34%) á milli áranna 2018 og 2019, mælt í erlendri mynt. Á hinn bóginn var samdráttur í útflutningsverðmæti kolmunna, eða um rúm 12% í erlendri mynt.

Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða eftir tegundum

Í milljörðum króna á föstu gengi miðað við meðalgengi* ársins 2019

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
* Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans

Áhersla á fleiri og ólíka markaði er styrkur

Sjávarafurðir eru afar fjölbreyttar, bæði hvað varðar tegundir og vinnslu. Segja má að afurðirnar séu allt frá því að líkjast hefðbundnum hrávörum til sérhæfðrar matvöru í hæsta gæðaflokki. Þetta skapar ákveðinn, en nauðsynlegan, sveigjanleika, eins og þegar dregur mjög úr eftirspurn. Markaðir með íslenskar sjávarafurðir eru því margir og ólíkir, sem er ekki síður mikilvægur eiginleiki. Þegar illa árar í einu landi, vegna efnahagslegra eða pólitískra þrenginga, er hægara um vik að bregðast við og leita annað þegar viðskiptasambönd eru víðar. Þó er vissulega ekki alltaf um fullkomna staðkvæmd að ræða, samanber afleiðingar af viðskiptabanni Rússa sem enn er við lýði.

Bretland hefur verið og er stærsta viðskiptaland Íslendinga með sjávarafurðir. Þangað fer langmest af frystum botnfisksafurðum og er þorskurinn vitaskuld þar fremstur í flokki. Árið 2019 var um 17% alls sjávarfangs flutt út til Bretlands, miðað við verðmæti. Vægi þess markaðar er þó ekki nærri eins afgerandi og á árum áður, en árið 2010 var hlutdeild hans rúm 21%.

Frakkland er annað stærsta viðskiptaland Íslendinga, en franski markaðurinn hefur orðið æ mikilvægari undanfarinn áratug. Það kemur heim og saman við þá miklu aukningu sem orðið hefur á framleiðslu ferskra botnfisksafurða á tímabilinu, en þar er Frakkland langstærsta viðskiptaland Íslendinga. Hlutdeild Frakklands í útflutningsverðmætum sjávarafurða alls var rúm 12% á árinu 2019 samanborið við 6% árið 2010. Aðrir markaðir sem einnig hafa verið í mikilli sókn síðasta áratuginn eru Bandaríkin og Kína, en þessir markaðir eru afar ólíkir. Til Kína fer mest af frystum afurðum sem unnar eru úr grálúðu, makríl og sæbjúgum, auk loðnuhrogna. Árið 2019 fóru um 5% sjávarfangs miðað við verðmæti til Kína samanborið við rétt rúmt 1% árið 2010. Útflutningur til Bandaríkjanna hefur á hinn bóginn aukist, sér í lagi útflutningur á ferskum afurðum. Var hlutdeild Bandaríkjanna í útflutningsverðmætum sjávarafurða á árinu 2019 tæp 9% en var tæp 5% árið 2010.

Breytingar á framboði einstakra tegunda á milli ára hefur vitaskuld áhrif á hlutdeild einstakra viðskiptalanda með sjávarafurðir. Því hafði loðnubrestur á árinu 2019 veruleg áhrif á viðskipti við þau lönd sem flytja mikið inn af loðnuafurðum, en þar eru Noregur og Japan fremst í flokki. Þó eru afurðirnar sem fluttar eru út til þessara tveggja landa afar ólíkar. Noregur er stærsta viðskiptaland Íslendinga með fiskimjöl, enda ein öflugasta fiskeldisþjóð í heimi. Fór hlutdeild Noregs í útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild úr 9% í rúm 6% á milli áranna 2018 og 2019. Japan er á hinn bóginn stærsta viðskiptaland Íslendinga með frystar loðnuafurðir. Fór hlutdeild Japans í útflutningsverðmæti sjávarafurða úr tæpum 4% árið 2018 í tæp 2% árið 2019.

Hlutdeild stærstu viðskiptalanda í útflutningsverðmæti sjávarafurða

Röðun miðast við heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða á árunum 2010 til 2019

Heimild: Hagstofa Íslands

Umræða á villigötum

Sjávarútvegur á Íslandi nýtur sérstöðu á alþjóðavettvangi enda nýtur hann engra opinberra styrkja eða niðurgreiðslna eins og sjávarútvegur í flestum öðrum löndum. Á Íslandi snýr umræðan fremur að því hvernig hægt sé að skattleggja greinina enn frekar og ber veiðigjaldið þar gjarnan á góma. Það er vissulega öfundsverð staða. Sú umræða er hins vegar oft á misskilningi byggð og stundum afvegaleidd, eins og sú sem snérist um hvort veiðigjaldið árið 2019 hefði verið lækkað eða hækkað frá fyrra ári. Fjárhæð veiðigjaldsins lækkaði vissulega á milli ára, fór úr 11,3 milljörðum króna árið 2018 í 6,6 milljarða króna árið 2019. Lækkunin var þó einkum komin til vegna umtalsvert lakari afkomu greinarinnar á því tímabili sem gjaldstofn veiðigjaldsins fyrir árið 2019 byggðist á. Afkoman á viðmiðunartímabilinu fyrir veiðigjaldið árið 2018, var hins vegar miklu betri. Þegar gjaldstofn lækkar vegna lakari afkomu, en skattprósentan er sú sama, verður sú fjárhæð sem greidd er í krónum talið augljóslega lægri. Var veiðigjaldið því sannanlega ekki lækkað á árinu 2019. Hvað sem þessu líður er ljóst að veiðigjaldið var ekki nærri eins þungt í efnahagsreikningi sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 2019 eins og árið 2018 þegar gjaldtakan var svo sannarlega úr hófi fram.

Veiðigjald

Í milljörðum króna á verðlagi hvers árs

Heimild: Fiskistofa og Deloitte

Heimatilbúnar hindranir

Olíuverð hélst tiltölulega stöðugt hér á landi á árinu 2019 eftir að hafa hækkað nær samfellt frá miðju ári 2017 til október 2018. Var verð á skipagasolíu að jafnaði um 6% hærra á árinu 2019 en árið 2018. Á sama tíma lækkaði heimsmarkaðsverð á Brent hráolíu um rúm 10%. Ástæða hækkunar á olíuverði hérlendis virðist því einkum vera tvíþætt. Það er annars vegar vegna tæplega 12% lækkunar á gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar og hins vegar vegna innlendrar hækkunar á opinberri gjaldtöku.

Verð á skipagasolíu

Án VSK, kr/ltr

Heimild: Skeljungur

Olíuverð hefur veruleg áhrif á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja enda hefur olíukostnaður að jafnaði verið annar stærsti kostnaðarliðurinn í rekstri þeirra. Þegar hækkunin verður fyrir tilstilli hækkandi olíuverðs á heimsmarkaði kemur það einnig við rekstrarskilyrði samkeppnisaðila. Hið sama á ekki við þegar hækkun á olíuverði á rætur að rekja til aukinnar álagningar af hálfu hins opinbera, líkt og þær miklu hækkanir sem hafa verið á kolefnisgjaldi hér á landi undanfarin ár. Kolefnisgjald var hækkað um 10% í ársbyrjun 2019, en sú hækkun kom í kjölfarið á 50% hækkun árið á undan. Hafði gjaldið þá hækkað um 260% frá því það var upphaflega lagt á árið 2010.

Samkeppnisaðilar búa ekki við sömu skattheimtu er kemur að eldsneytisverði. Það veikir verulega samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Hafa ber í huga að útflutningsgreinar geta ekki skellt innlendum kostnaðarhækkunum út í verð afurða sinna. Þessi gjaldtaka gengur því þvert á markmiðið, sem er að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum og flýta orkuskiptum. Hækkun gjaldsins rýrir afkomu íslensku fyrirtækjanna og þar með svigrúmi þeirra til að fjárfesta í umhverfisvænni tækjum og búnaði.

Kolefnisgjald á skipagasolíu

Krónur á lítra

Heimild: Alþingi

Sjaldséð þróun

Á Íslandi hefur það verið regla, fremur en undantekning, að laun hækki langt umfram laun í okkar helstu samkeppnislöndum og jafnframt umfram það sem samrýmist aukinni framleiðni í landinu. Þessi staðreynd dregur verulega úr samkeppnishæfni útflutningsgreina hér á landi. Þegar ofan á bætist sterk króna verður staða þeirra enn verri en ella. Við slíkan veruleika hafa útflutningsfyrirtæki hér á landi búið undanfarin ár, sem kemur bersýnilega fram í þróun raungengis krónunnar á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar. Sá mælikvarði endurspeglar hvernig launakostnaður á Íslandi þróast í samanburði við launakostnað í viðskiptalöndum, mælt í sömu mynt.

Raungengi miðað við hlutfallslegan launakostnað

Vísitala þar sem árið 2005=100

Heimild: Seðlabanki Íslands

Þróun raungengis krónunnar á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar var í fyrsta sinn hagfelld á árinu 2019 fyrir útflutningsgreinar í heilan áratug. Vissulega hafði raungengið lækkað lítillega árið á undan, en sú lækkun var vel innan við 1% frá fyrra ári. Árið 2019 lækkaði raungengi krónunnar um rúm 8% á milli ára og batnaði því samkeppnisstaða útflutningsfyrirtækja þó nokkuð á árinu. Lækkun raungengisins var fyrst og fremst vegna lækkunar á nafngengi krónunnar upp á tæp 8%, en þar að auki virðist launakostnaður hafa hækkað hlutfallslega minna hér á landi en í helstu viðskiptalöndum. Hvað launakostnað snertir, var munurinn vel innan við 1% á árinu 2019. Sú breyting, þó lítil sé, var þó kærkomin enda hafði launakostnaður fyrirtækja á Íslandi hækkað samfellt og langt umfram launakostnað fyrirtækja í helstu viðskiptalöndum frá árinu 2010.

Raungengi miðað við hlutfallslegan launakostnað

Breyting á milli ára (%)

Heimild: Seðlabanki Íslands

Launakostnaður er stærsti kostnaðarliður í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Launakerfi sjómanna byggist á hlutaskiptum aflaverðmætis á milli sjómanna og útgerða og haldast laun þeirra þar með í hendur við tekjur sjávarútvegsfyrirtækja. Hið sama á ekki við um laun í landi sem vega ríflega þriðjung af launakostnaði hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Þó stendur íslenskur sjávarútvegur vel að vígi í samanburði við önnur lönd hvað framleiðni varðar, ólíkt öðrum atvinnugreinum hér á landi. Aukin framleiðni er þó síður en svo ókeypis enda krefst hún fjárfestinga í tækjum og búnaði.

Undirstaða þróunar

Af ofangreindu er ljóst að samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er ekki upp á marga fiska þegar kemur að opinberri gjaldtöku eða launum og tengdum gjöldum. Eins vinnur fjarlægð frá markaði gegn okkur og er hár flutningskostnaður einn stærsti kostnaðarliður sem íslensk fyrirtæki bera umfram erlenda samkeppni. Það hlýtur þó eitthvað að vinna með íslenskum sjávarútvegi í alþjóðlegum samanburði, annars væri hann hvorki fugl og þaðan af síður fiskur. Skýringanna er að leita í íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu. Markmið þess, að stuðla að efnahagslegum ávinningi þjóðarbúsins með sjálfbærni að leiðarljósi, eru yfirgnæfandi í íslenska kerfinu í samanburði við önnur lönd. Með sjálfbærni að leiðarljósi er ljóst að ekki verður gengið á fiskistofnana umfram það sem þeir þola, samkvæmt bestu vísindum hverju sinni. Þetta leiðir til þess að ekki er hægt að auka verðmætin einfaldlega með því að veiða meira. Það verður að gerast með öðrum hætti. Það er gert með fjárfestingum, auknum gæðum, nýsköpun og markaðsstarfi. Kerfið hvetur einfaldlega til þess að reynt sé að kreista hverja krónu úr hverju kílói sem dregið er úr sjó. Það er því innbyggður hvati í íslenska kerfinu til að fjárfesta enda er það lífsspursmál fyrir fyrirtækin til þess að viðhalda samkeppnishæfni.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa ráðist í verulegar fjárfestingar á undanförnum árum. Í raun hefur fjárfesting ekki verið meiri á 5 ára tímabili en á undanförnum 5 árum, frá því að upphafleg lög um stjórn fiskveiða frá árinu 1990 tóku gildi (þau sem eru í gildi núna eru frá árinu 2006). Er hér átt við nettó fjárfestingu, sem er fjárfesting að frádregnum seldum eignum. Fjárfesting í sjávarútvegi nam tæplega 23 milljörðum króna á árinu 2019 samkvæmt bráðabirgðamati Hagstofunnar. Skiptist hún nokkuð jafnt á milli fiskveiða og fiskvinnslu. Það er ríflega þriðjungi hærri fjárhæð að raungildi en að jafnaði hefur verið varið til fjárfestinga á ári hverju síðastliðna þrjá áratugi.

Fjármunamyndun í sjávarútvegi*

Í milljörðum króna á föstu verðlagi 2019 miðað við vísitölu neysluverðs

Heimild: Hagstofa Íslands
* Fjárfesting að frádregnum seldum eignum
** Tölur fyrir 2018 til 2019 eru bráðabirgðatölur

Fjárfesting er umhverfismál

Sú mikla fjárfesting sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa ráðist í hefur ekki einungis skilað sér í efnahagslegum ávinningi heldur einnig til umhverfisvænni framleiðslu. Verður hagkvæmni af fjárfestingu ekki öllu áþreifanlegri en það. Áhrifin koma bersýnilega fram í tölum er varða umhverfismál, eins og olíunotkun greinarinnar. Á árinu 2019 var olíunotkun íslenskra fiskiskipa og greinarinnar í heild sú minnsta frá upphafi mælinga sem ná aftur til ársins 1982, fyrir daga kvótakerfisins. Vissulega er olíunotkun á hverjum tíma háð framleiðslu, en sjávarútvegi hefur á hinn bóginn tekist að draga úr notkun án þess að það komi niður á framleiðslu, og gott betur. Það er afar sjaldgæf en ákjósanleg þróun í atvinnugreinum almennt. Það ætti því að gefa auga leið að svigrúm íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja til fjárfestingar er nauðsynlegt og ávinningur þess er allra hagur.

Olíunotkun í sjávarútvegi

Í þúsundum tonna

Heimild: Orkustofnun og Félag íslenskra fiskimjölsframleiðenda

Að standa af sér storminn

Ástandið sem nú ríkir í heimsbúskapnum vegna COVID-19 faraldursins er án fordæma og hefur áhrif á allar atvinnugreinar í öllum ríkjum heims. Áhrifin eru þó vissulega mismikil á milli greina. Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja er fjölbreyttur og eru áhrif faraldursins því einnig mismunandi á milli fyrirtækja innan greinarinnar á framleiðslu, sölu og birgðastöðu. Í heildina má þó segja að þrátt fyrir að staðan í sjávarútvegi sé erfið og óvissan óvenju mikil, þá er hún samt bærilegri en í mörgum öðrum atvinnugreinum.

Ljóst er að sjávarútvegsfyrirtæki standa frammi fyrir mikilli óvissu og breytingum í starfsemi sinni vegna COVID-19. Markaður með sjávarafurðir hefur umturnast enda er höggið þungt þegar stór hluti jarðarbúa sætir útgöngubanni eða skerðingu á ferðafrelsi og vinnustöðum og landamærum víða lokað eða takmarkanir verið settar á. Ástandið sveiflast með gangi veirunnar og tilheyrandi sóttvarnaraðgerðum. Þar ofan á hafa flutningsleiðir afurða til söluaðila raskast, sér í lagi með flugi en einnig sjó- og landleiðina. Þetta hefur jafnframt leitt til aukins kostnaðar fyrirtækjanna vegna flutninga á sama tíma og afurðaverð hefur verið að lækka. Sú lækkun sem orðið hefur á gengi krónunnar vegur þó upp á móti, en sambandið þar er ekki einhliða í rekstrarreikningi sjávarútvegsfyrirtækja þar sem flestir kostnaðarliðir hækka. Þó hefur lægra gengi krónu vissulega jákvæð áhrif á afkomu sjávarútvegs í heildina litið, líkt og annarra útflutningsgreina.

Gangurinn í sjávarútvegi hefur almennt verið betri en á horfðist í fyrstu þegar faraldurinn skall á. Sá árangur hefur komið mörgum á óvart. Má hér nefna að bæði Seðlabankinn og Hagstofan spá talsvert minni samdrætti í útflutningi sjávarafurða í ár í nýjustu spám sínum, sem komu út síðla sumars og í haust, en í þeim sem birtar voru í byrjun sumars. Breytinguna má einkum rekja til þess að gangurinn í sjávarútvegi á öðrum ársfjórðungi var umfram væntingar þeirra.

Í ástandi sem þessu skiptir sköpum sá sveigjanleiki íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og styrkur þess skipulags sem greinin býr við. Sjávarafurðir eru afar fjölbreyttar, bæði hvað varðar tegundir og vinnsluafurðir. Ólíkir afurðaflokkar sömu fisktegunda endurspegla sveigjanleika, það er að svigrúm sé til tilfærslu á milli afurðaflokka innan sömu tegundar eftir aðstæðum, eins og þegar skellur verður í eftirspurn. Áhersla sjávarútvegsfyrirtækja á að sækja á fleiri og ólíka markaði er ekki síður mikilvægur eiginleiki, enda er hægara um vik að bregðast við og leita annað þegar viðskiptasambönd liggja víða. Svo er það aflamarkskerfið, sem tryggir fyrirtækjum rétt til veiða á tilteknu magni innan fiskveiðiársins, ásamt samþættingu veiða og vinnslu og órofinni virðiskeðju allt til erlendra kaupenda sjávarafurða. Þótt ómögulegt sé að spá fyrir um framhaldið, sem ekki síst ræðst af því hvernig til tekst að ráða niðurlögum faraldursins víða um lönd, munu þessir eiginleikar vafalaust flýta fyrir aðlögun sjávarútvegs að nýjum aðstæðum. Það hefur sjaldan verið mikilvægara fyrir þjóðarbúið!

Útflutningur á vöru og þjónustu, án skipa og flugvéla

Í milljörðum króna á föstu gengi miðað við meðalgengi** ársins 2019

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
* Bráðabirgðatölur um fyrri árshluta 2020
** Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans