20200420_111318.jpg

Fiskeldi

Mikill framleiðsluvöxtur varð í íslensku fiskeldi á árinu 2019. Verulegar breytingar urðu ennfremur á rekstrarumhverfi greinarinnar, einkanlega sjókvíaeldisins, með nýjum lögum um fiskeldi og sérstakri gjaldtöku af fiskeldi, sem samþykkt voru á Alþingi, 19. júní það ár.

Alþjóðleg þróun

Mikill vöxtur hefur orðið í margvíslegu fiskeldi víðs vegar um heiminn. Segja má að þar séu tvenns konar kraftar að verki. Annars vegar lýðfræðilegir; vaxandi og stöðug mannfjölgun í heiminum og bætt lífskjör og aukinn kaupmáttur. Hins vegar sú staðreynd að víða erum við komin að eins konar endimörkum vaxtarins í ýmsum greinum hefðbundinnar matvælaframleiðslu.

Prótínneysla í heiminum jókst um 40% frá árinu 2000 til 2018. Helmingur aukningarinnar stafar frá Asíu. Prótínneyslan er núna um 26 kíló á mann á ári og talið er að hún muni aukast um 27% til ársins 2025 og verði þá 33 kíló á mann. Aukningin er talin vera drifin áfram af auknum fólksfjölda, meiri velmegun og þéttbýlismyndun.

Frá aldamótum hefur íbúum jarðarinnar fjölgað um 90 milljónir á ári. Fólki sem yrkir jörðina eða stundar fiskveiðar fækkar, en íbúum þéttbýlis sem eru háðir utanaðkomandi matvælaframleiðslu, fjölgar. Talið er að 80 milljónir manna flytji til borga á ári fram til ársins 2025. Svonefndur neysluhópur (consuming class), sem er fólk með meðallaun ofan við tiltekið mark (10 til 100 bandaríkjadalir á dag), hefur vaxið árlega. Því er spáð að fjölga muni í þessum hópi að jafnaði um 290 milljónir á ári til ársins 2025. Þetta er sá hópur sem hefur fjárráð til að kaupa matvöru á borð við þær sem viðteknar eru í vestrænum ríkjum; vörur á borð við kjöt og fisk, villtan fisk jafnt og eldisfisk.

Austfirðir_kví.jpg

Til samanburðar má nefna að í ríkjum Evrópusambandsins búa um 500 milljónir manna og um 325 milljónir í Bandaríkjunum. Árleg fjölgun í „neysluhópnum“ er því nálægt heildarmannfjölda í Bandaríkjunum.

Spáð er breytingum í neysluvenjum; samdrætti í kjötneyslu, en aukningu í neyslu á fiski og fiskmeti sem og afurðum frá akuryrkju. Margt leggst á eitt í þessari þróun: Siðferðileg sjónarmið sem beinast gegn kjötneyslu (kolefnisfótspor, grænmetisætur, jurtaætur o.s.frv.), takmarkanir vegna takmarkaðs ræktarlands, andstaða við að brjóta ósnortin svæði og skóga undir ræktarland. Og síðast en ekki síst hafa tækniframfarir við akuryrkju og fiskeldi skapað ný tækifæri til matvælaframleiðslu. Sá hluti landbúnaðar sem framleiðir kjöt og mjólkurvörur nýtir 83% alls ræktarlands og er ábyrgur fyrir 60% kolefnisútblásturs.

Byggt á þessum forsendum er talið að fiskeldi í heiminum muni standa fyrir um 6% af prótínframleiðslu í heiminum en 16% af verðmæti árið 2025. Talið er að framleiðsluverðmæti í fiskeldi á heimsvísu muni aukast um 12% á ári til ársins 2025.

Hér við Norður-Atlantshaf er vöxtur fiskeldis að langmestu leyti bundinn við laxeldi. Framleiðsla á Atlantshafslaxi í heiminum nam tæpum 2,6 milljónum tonna árið 2019, sem talið er að svari til um 17,5 milljarða máltíða á ári. Norðmenn framleiddu um 2/3 magnsins, eða um 1,6 milljónir tonna.

Í sem skemmstu máli má segja að öll þau ríki sem á annað borð geta stundað sjókvíaeldi á laxi hafi aukið framleiðslu sína og stefna að frekari aukningu, enda sjá þau þar ótvíræða vaxtamöguleika.

Framvinda ársins 2019

Almennt má segja að fiskeldi á Íslandi hafi gengið vel á árinu 2019. Veruleg framleiðsluaukning varð bæði í laxeldi og bleikjueldi. Markaðsaðstæður voru einnig ákjósanlegar lengst af ársins, sem einkenndist af góðri eftirspurn og háu verði.

Laxeldi hér á landi tvöfaldaðist árið 2019 frá árinu á undan. Alls nam framleiðslan um 27.000 tonnum. Þetta er rífleg þreföldun frá árinu 2016, en það ár tók framleiðslan mikinn kipp. Frá árinu 2012 til 2015 nam ársframleiðslan að jafnaði um 3.000 tonnum. Laxeldi hér á landi fer að langmestu leyti fram í sjókvíum. Landeldi á laxi á sér þó alllanga sögu hérlendis og hefur að jafnaði numið um 1.000 til 1.200 tonnum á ári.

Svipaða sögu má segja af bleikjuframleiðslu í fyrra. Segja má að undanfarinn áratug hafi hún vaxið jafnt og þétt. Síðustu árin nam vöxturinn að jafnaði um 500 tonnum á ári, en aukningin á milli áranna 2018 og 2019 nam 1.500 tonnum. Staða íslenskrar bleikjuframleiðslu á alþjóðlegum mörkuðum er sterk og er langstærsti hluti heimsframleiðslunnar hér á landi. Það er því ljóst að breytingar á framleiðslumagni á íslenskri bleikju hefur veruleg áhrif á markaðinn

Framleiðsla í eldi

Í tonnum af óslægðum fiski

Heimild: Dýralæknir fisksjúkdóma

Framleiðsla á regnbogasilungi var um 300 tonn, sem er álíka mikið og árið 2018. Þetta er talsvert minni framleiðsla en var á árunum 2015 til 2017. Á því tímabili var veruleg aukning í framleiðslu á regnbogasilungi og fór hún mest í rúm 4.600 tonn árið 2017. Ætla má að við munum sjá aukningu á þessari framleiðslu að nýju þar sem fyrirtæki hafa sótt um og fengið framleiðsluheimildir á regnbogasilungi.

Hvað aðra eldisframleiðslu varðar er magn Senegalflúru nokkuð stöðugt, tæp 400 tonn á ári. Nær engin framleiðsla var á eldisþorski og er það mikil breyting frá fyrri árum. Mest varð framleiðsla á eldisþorski um 1.800 tonn, árið 2009.

Yfirdýralæknir fisksjúkdóma segir í ársskýrslu sinni fyrir síðasta ár að heilbrigðismál í fiskeldi hafi almennt verið á mjög góðum stað. Er það fagnaðarefni sem hefur vitaskuld átt sinn þátt í vexti og velgengni greinarinnar. Í því sambandi er rétt að árétta að engin sýklalyfjanotkun er til staðar í íslensku fiskeldi og hefur það verið svo frá því að laxeldi hóf að byggjast upp að nýju árið 2012.

Vegna hinnar stöðugu aukningar í heildarframleiðslu í fiskeldi hér á landi, einkanlega vegna vaxandi laxeldis, er atvinnugreinin orðin umtalsverður þáttur í útflutningi frá Íslandi. Útflutningsverðmæti fiskeldis frá Íslandi nam á síðasta ári um 25 milljörðum króna. Það er rífleg fimmföldun á útflutningsverðmætum á föstu gengi frá árinu 2014, sem endurspeglar þann mikla vöxt sem hefur verið í þessari atvinnugrein undanfarin árin. Mest munar auðvitað um aukningu í laxeldi. Nam útflutningsverðmæti eldislax ríflega 16 milljörðum króna á árinu 2019, að frjóvguðum laxahrognum undanskildum, sem er rífleg tvöföldun á verðmætum frá 2018, á föstu gengi. Útflutningsverðmæti bleikju nam ríflega 5 milljörðum króna og jókst um rúm 34% frá árinu 2018.

Til þess að setja þetta í samhengi, má benda á að útflutningsverðmæti eldisafurða á árinu 2019 var tæp 10% af útflutningsverðmætum sjávarafurða. Það hlutfall hefur aldrei verið svo hátt. Hlutdeild eldisafurða fer upp í 50% sé einungis miðað við útflutningsverðmæti uppsjávarafurða, það er loðnu, makríls, síldar og kolmunna.

Útflutningsverðmæti eldisafurða

Í milljörðum króna á föstu gengi miðað við meðalgengi ársins 2019*

Heimild: Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands
*Nálgað með gengisvísitölu Seðlabankans
**Frjóvguð hrogn meðtalin

Breytingar á lagaumhverfi fiskeldis árið 2019

Allnokkrar breytingar voru gerðar á lagaumhverfi fiskeldis á árinu með breytingarlögum nr. 101/2019, sem breyttu lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, og nýjum lögum nr. 89/2019 um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Tilurð lagabreytinga má að verulegu leyti rekja til vinnu starfshóps sem skipaður var 30. nóvember 2016 og skilaði skýrslu um stefnumótun í fiskeldi 21. ágúst 2017. Í skipunarbréfi starfshópsins var vísað til mikilvægis þess að skilyrði og umgjörð um fiskeldi verði eins og best verður á kosið og í sem mestri sátt við umhverfið. Þá var breytingarlögunum ætlað að bregðast við fyrirmælum ákvæðis til bráðabirgða IV í breytingarlögum nr. 49/2014, þar sem mælt var fyrir um skyldu til að endurskoða lög um fiskeldi með hliðsjón af vistfræðilegum þáttum og innleiðingu ýtrustu umhverfisstaðla.

Með breytingarlögum nr. 101/2019 voru innleidd í lög um fiskeldi ákvæði um:

  • að heildarframleiðslumagn frjórra laxa verði byggt á áhættumati erfðablöndunar
  • að hafsvæðum verði skipt í eldissvæði og heimiluð verði úthlutun þeirra með auglýsingu
  • að stjórnsýsla verði efld og eftirlit aukið með fiskeldi
  • að umsóknir um rekstrarleyfi, á svæðum sem hafa verið metin til burðarþols og þar sem frummatsskýrslu hefur verið skilað fyrir gildistöku laganna til Skipulagsstofnunar, fari eftir eldri ákvæðum laganna
  • að mælt verði fyrir um vöktun og heimild til aðgerða vegna laxalúsar
  • að aukið gegnsæi verði um starfsemi fiskeldisfyrirtækja
  • að Umhverfissjóður sjókvíaeldis verði efldur
  • að rekstrarleyfi fyrir ófrjóan lax verði háð nýtingu þeirra
  • að tekin verði upp heimild til álagningar stjórnvaldssekta

Laxar  (6).jpg

Segja má að eitt veigamesta nýmæli laganna hafi verið lögfesting áhættumats erfðablöndunar. Með áhættumati er leitast við að leggja mat á það magn frjórra laxa sem leyfilegt er að ala án þess að það hafi skaðleg áhrif á villta laxastofna. Markmiðið með áhættumatinu er að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum. Áhættumatið gerir samkvæmt því ráð fyrir að óafturkræfum skaða sé valdið eða sjálfbærri nýtingu villts stofns sé stefnt í hættu fari fjöldi eldislaxa í veiðivatni yfir tiltekin viðmiðunarmörk.

Með lögum nr. 89/2019 um gjaldtöku vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð var mælt fyrir um töku gjalds vegna nýtingar á eldissvæðum í sjó og stofnsetningu fiskeldissjóðs til að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum. Fiskistofa annast stjórnsýslu laganna og sér um álagningu samkvæmt lögunum.

Útgáfa starfs- og rekstrarleyfa árið 2019

Á árinu 2019 voru gefin út fjögur starfs- og rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis á laxi. Þar af voru tvö endurútgefin leyfi. Nettó framleiðsluaukning vegna þessara leyfa gæti numið um 23.900 tonnum á ári. Auk þessa voru gefin út nokkur starfs- og rekstrarleyfi vegna landeldis, jafnt seiðaeldis og vegna framleiðslu á laxi og bleikju í landeldisstöðvum.

IMG_0260.jpg

Atvinnusköpun og áhrif á byggð

Vöxtur fiskeldis hefur hefur skapað fjölda nýrra starfa, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins. Í skýrslu Byggðastofnunar um byggðaleg áhrif fiskeldis (ágúst 2017) er miðað við að 130 ársverk beinna starfa þurfi við framleiðslu á 10 þúsund tonnum af laxi. Til viðbótar verði til um 100 ársverk beinna og afleiddra starfa við slíkt framleiðslumagn. Er m.a. byggt á reynslutölum frá Færeyjum og Noregi.

Í ljósi þessa má ætla að bein og óbein störf við fiskeldisframleiðslu ársins 2019 hafi verið um 760; 600 vegna laxeldis og 160 vegna annarrar fiskeldisstarfsemi.

Í nýrri úttekt norsku rannsóknastofnunarinnar SINTEF eru leiddar líkur að því að óbeinu störfin kunni að vera enn fleiri. Er það jafnframt niðurstaða stofnunarinnar að verðmætasköpun í fiskeldi á hvern starfsmann sé mun meiri en í flestum öðrum atvinnugreinum.

Laxar  (5).jpg

Í þessu sambandi skiptir máli að langstærsti hluti fiskeldisframleiðslunnar fer fram utan höfuðborgarsvæðisins og nágrennis. Það er því ljóst að þessi mikla atvinnusköpun hefur orðið á landsbyggðinni, meðal annars á svæðum sem hafa átt undir högg að sækja af ýmsum ástæðum. Þessu til viðbótar má geta þess að reynslan hefur sýnt að vegna hinna nýju starfa hefur ungt fólk flutt í auknum mæli til þeirra svæða þar sem fiskeldi er stundað. Aldurskúrfan sem fram til þessa hefur verið óhagstæð (hátt hlutfall eldra fólks en lágt hlutfall yngri íbúa) hefur breyst til batnaðar. Þá hefur reynslan frá Norður-Noregi, þar sem byggðalegar aðstæður eru ekki ólíkar því sem þekkist á Vestfjörðum og Austfjörðum, leitt í ljós að stærri hluti þjónustunnar við fiskeldið er veittur af fyrirtækjum í nágrenni eldisins, en áður var talið. Þjónustan við fiskeldið, hin óbeinu störf, hafa því í vaxandi mæli orðið til í nærumhverfinu en er síður sótt um langan veg til fjarlægari borga eða stærri bæja.

Framleiðsla í eldi eftir umdæmum

Í tonnum af óslægðum fiski

Heimild: Dýralæknir fisksjúkdóma

Til framtíðar litið

Ætla má að laxeldisframleiðsla ársins 2020 verði um 32 þúsund tonn og um 37 þúsund tonn á því næsta og önnur fiskeldisframleiðsla verði um sjö þúsund tonn til viðbótar.

Ýmislegt hefur skýrst um framtíð fiskeldisins á síðustu misserum. Ný löggjöf hefur litið dagsins ljós. Þar er meðal annars kveðið á um svokallað áhættumat sem segja má að marki laxeldinu ramma um fyrirsjáanlega framtíð. Samkvæmt hinu nýja áhættumati er gert ráð fyrir að framleiðsluheimildir greinarinnar verði um 106,5 þúsund tonn, miðað við lífmassa. Ætla má að laxeldið muni ná þessari stærð á allra næstu árum. Þá verður svo komið að framleiðsla á laxi á Íslandi verður álíka mikil og í Færeyjum. En laxeldið þar í landi hefur gjörbreytt öllum efnahagslegum forsendum til hins betra og skapað lífskjör eins og þekkist best í heiminum.